Innlent

Flytja lax upp fyrir Elliðavatn

Til stendur að flytja 20 hrygningarpör úr Elliðaám upp fyrir Elliðavatn í Suðurá og Hólmsá. Ástæðan er sú að sífellt hrygna færri laxar á þessum slóðum og þykir fiskifræðingum það áhyggjuefni. Vonast er til að þessar aðgerðir verði til þess að lax fari aftur að hrygna ofan við vatnið í auknum mæli sem aftur yrði til þess að stækka stofninn. Einnig er þeim tilmælum beint til veiðimanna að þeir sleppi þeim laxi aftur sem þeir veiða á meðan ástand ánna er ekki betra. Í veiðihúsi Stangveiðifélags Reykjavíkur verða tiltækar upplýsingar til veiðimanna um það hvernig best er að sleppa laxi ósködduðum. Litlar skýringar eru á því afhverju laxastofninn er orðinn jafn lítill og raun ber vitni í Elliðaám. Hluta skýringarinnar má þó rekja til þess þegar stofninn hrundi í kjölfar kýlaveiki árið 1996. Síðasta sumar veiddust rúmlega 600 laxar í ánum, það sem af er sumri hafa veiðst 33 laxar og 59 laxar hafa farið gegnum teljara við Rafstöðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×