Innlent

Yfirtökunefnd tekur til starfa

Yfirtökunefnd sem fjallar um yfirtökuskyldu á hlutabréfamarkaði tekur til starfa á morgun. Markmiðið er að vernda betur minnihluta og hinn almenna fjárfesti í hlutafélögum og greiða úr álitaefnum sem snerta yfirtökur. Yfirtökunefnd er sjálfstæð nefnd, skipuð þremur mönnum, sem verður ekki hluti af eftirlitskerfi hins opinbera á fjármálamarkaði. Nefndin tekur ekki við fyrirmælum frá Kauphöll Íslands eða þeim sem standa að stofnun hennar, en meðal þeirra eru Kauphöllin, Eignarhaldsfélag hlutafélaga, Fjármálaeftirlitið, Samtök banka- og verðbréfafyrirtækja og Samtök fjárfesta. Nefndin mun veita ráðgjöf varðandi reglur um yfirtökuskyldu og gerð yfirtökutilboða og skoða sjálfstætt ýmis mál sem kunna að koma upp. Viðar Már Matthíasson segir að nefndin muni leitast við að starfa sem mest í samvinnu við þá sem máli skiptir og að henni sé ætlað að efla minnnihlutavernd í hlutafélögum. Jafnframt að efla vernd hins almenna fjárfestis svo að hann frjósi ekki inni með sína hluti. Álitaefnum sem snerta yfirtökur á hlutabréfamarkaði hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár, í samræmi við vöxt markaðarins. Þórður Friðjónsson segir ákæðin ekki hafa verið nægilega skýr og að mikilvægt hafi verið að skýra lagarammann. Lagaramminn er því orðinn skýrari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×