Innlent

Halldór vísar á Ríkisendurskoðun

Forsætisráðherra hefur ekkert að segja um pantað lögfræðiálit stjórnarandstöðunnar, eins og það er orðað. Hann vísar á Ríkisendurskoðun sem sé sjálfstæð eftirlitsstofnun Alþingis. Lögfræðingar sem unnu nýtt álit fyrir stjórnarandstöðuna segja að ráðherrann hafi verið starfsmaður ráðherranefndar um einkavæðingu í skilningi stjórnsýslulaga og hefði því átt að vekja athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu. Eins og við sögðum frá í fréttum í gær, er það álit lögfræðinganna sem fjölluðu um minnisblað Ríkisendurskoðunar um hæfi Halldórs Ásgrímssonar til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka til S-hópsins að það væri verulegum annmörkum háð. Ef stofnunin hefði ætlað að fjalla um hæfi ráðherrans hefði hún átt að gera það í úttektinni á sölu ríkisbankanna 2003. Lögfræðingarnir, Sif Konráðsdóttir og Björn L. Bergsson telja að Ríkisendurskoðun hefði átt að vera kunnugt um eignarhlut Skinneyjar Þinganess í Hesteyri þrátt fyrir rangar upplýsingar S hópsins. Og þrátt fyrir að forsætisráðherra segi að honum hafi verið ókunnugt um aðild ættingja sinna að félaginu. Ítarlega hafi verið fjallað um málið í fjölmiðlum. Lögfræðingarnir líta svo á að við mat á fjárhagslegum hagsmunum Halldórs og ættingja hans beri að líta til helmings eignarhlutar Hesteyrar í Keri frá 16 ágúst 2002 til 19. nóvember 2002 þegar fjölskyldan hafi átt að minnsta kosti þrjátíu og sex prósent. Á þessum tíma fór fram valið á S hópnum sem kaupanda en Ker var hluti af honum. Þeir segja hinsvegar að hann hafi, í skilningi stjórnsýslulaga, verið starfsmaður nefndarinnar sem varaformaður hennar. Honum hafi því borið að vekja athygli á hugsanlegu vanhæfi sínu. Þá ráði veikindi Halldórs í október og nóvember 2002 engum úrslitum um hæfi hans, þar sem málið hafi hafist í lok júní 2002 og staðið fram í miðjan janúar 2003. Þá hefði Ríkisendurskoðun, segja lögfræðingarnir ef hún hefði ætlað að gera heildarúttekt, þurft að skoða, tengsl Halldórs Ásgrímsssonar við einstaklinga sem voru í forsvari fyrir S-hópinn. Þar kemur sterkur inn Finnur Ingólfsson sem hefur verið náinn samstarfsmaður, aðstoðarmaður og vinur Halldórs Ásgrímssonar í meira en þrjá áratugi. Finnur Ingólfsson vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í dag. Ríkisendurskoðandi lét ekki ná í sig í dag. Þær upplýsingar fengust hjá ritara að hann væri á fjöllum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×