Innlent

Paul Gill játar

Paul Gill, einn þremenningana sem slettu skyri á álráðstefnu á Hótel Nordica, játaði húsbrot og stórfelld eignaspjöll fyrir héraðsdómi í morgun en lýsti efasemdum sínum um að tjónið væri jafn mikið og bótakrafan hljóðaði upp á. Dómur í máli hans verður kveðinn upp á morgun. Ólafur Páll Sigurðsson og Arna Ösp Magnúsardóttir mættu ekki fyrir dóminn í morgun þar sem þau eru í tjaldbúðunum við Kárahnjúka. Dómarinn ákvað að skilja ákæru Paul Gill frá ákærum hinna til að hægt væri að kveða upp dóm í máli hans á morgun. Mál hinna verða tekin fyrir í næstu viku. Gill játaði húsbrot og eignaspjöll en gerði miklar athugasemdir við upphæð bótakröfu Nordica Hótel sem hljóðar upp á 2,8 milljónir króna. Hann sagðist efast um að skemmdirnar hafi verið jafnmiklar og haldið er fram af forsvarsmönnum Hótel Nordica. Fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík sagði að mikill og einbeittur ásetningur hafi legið að baki brotinu. Ákærði sem hefði hreint sakarvottorð hefði hinsvegar játað brot sitt skýlaust fyrir dómi og bæri að njóta þess við ákvörðun refsingar. Hann taldi hæfilega refsingu skilorðsbundin fangelsisdóm frá einum og upp í þrjá mánuði. Paul Mc Gill vildi ekki tjá sig um ákæruna þegar eftir því var leitað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×