Innlent

Ráðherra í leyniheimsókn

Dr. Tan Sun Chen, utanríkisráðherra Taívans, kom hingað til lands í gær. Kínverskum embættismönnum gremst heimsóknin en íslensk stjórnvöld ítreka að ráðherrann sé hér einungis í einkaerindum Tan kom til landsins síðdegis í gær frá Noregi en strax við komuna til landsins þusti hann upp í bifreið með dökklituðum glerjum sem ekið var á brott í snarhasti. Að sögn kunnugra er ráðherrann hér að kynna sér land og þjóð og ætlar hann að hitta íslenska viðskipta- og skólamenn. Hann fer héðan á morgun. Íslenska ríkisstjórnin hefur engan viðbúnað vegna heimsóknarinnar og engin áform eru um að Tan hitti íslenska ráðamenn. "Þarna er um hreinræktaða einkaheimsókn að ræða sem ekki snertir á neinn máta íslensk stjórnvöld," segir Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Grunnt er á því góða á með ríkisstjórnum Kína og Taívan og því hafa starfsmenn kínverska sendiráðsins tjáð yfirvöldum andstöðu sína við heimsóknina. "Þeir hafa lýst yfir vissum áhyggjum af þessu og hvaða áhrif þetta gæti haft," segir Gunnar Snorri. Hann kvaðst hins vegar hafa ítrekað að Íslendingar viðurkenndu aðeins eitt Kína. "Samskipti Íslands og Kína eru svo góð og vinsamleg og hafa verið í svo ágætum farvegi að ég hef fulla trú á að þeir skilji að þetta er ekki illa meint." Kínverska sendiráðið vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×