Innlent

Tvö hús grafin úr ösku

Tvö hús sem fóru á kaf í ösku í Vestmannaeyjagosinu 1973 verða grafin upp á vegum Vestmannabæjar í sumar með styrk frá Ferðamálaráði Íslands. Bærinn hefur keypt tíu hús sem fóru undir ösku í gosinu og er stefnt að því að grafa þau öll upp næstu tíu árin.  "Þetta er einstakt verkefni, hefur aldrei verið gert áður. Í Pompei eru minjarnar mjög gamlar en hér er um að ræða nýlegar gosleifar og einsdæmi að fyrrverandi eigendur húsanna fylgist sjálfir með uppgreftrinum," segir Kristín Jóhannsdóttir menningar- og markaðsfulltrúi Vestmannaeyjabæjar og verkefnastjóri uppgraftarins. Byggt verður yfir húsin og þau gerð að safni, en slíkt safn hefur verið á aðalskipulagi bæjarins. Uppgröftur húsanna hefur verið draumur margra Eyjamanna um langt skeið að sögn Kristínar. "Flestir eru mjög spenntir fyrir þessu." Uppgröfturinn hefur gengið vel enda askan laus í sér. "Þetta er mjög heillegt. Útveggir standa enn, málningin er utan á þeim, og rúður eru heilar." Unnið er að heimildamynd um uppgröftinn og von er á erlendum blaðamönnum vegna verkefnisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×