Innlent

Menningartengt heilsuhótel?

Heilsuverndarstöðin við Barónstíg telst til merkari og glæsilegri húsa borgarinnar. Bygging þess hófst 1949 og var vígt 1957. Einhver starfsemi hófst í húsinu árið 1953. Einar Sveinsson og Gunnar H. Ólafsson eru arkitektar þess og flokkast það til síðfúnkís-húsa. Margar kynslóðir borgarbúa hafa sótt þangað heilsugæslu og aðra þjónustu á sviði heilsuverndar og ber fjöldi fólks sterkar taugar til hússins. Heilsuverndarstöðin er í sameiginlegri eigu ríkis og borgar sem nú hafa afráðið að rýma húsið og selja. Áformin leggjast misvel í fólk og hefur til að mynda Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi gagnrýnt að heilsuverndin skuli flutt af Barónstígnum. Fleiri eru þeirrar skoðunnar eða telja í öllu falli að áfram skulið hlúð að heilsu í húsinu glæsta. Aðrar hugmyndir eru nefndar hér, til dæmis hótel, leikhús og bókasafn. Kannski er ráð að hræra þessu saman í einn graut og koma á fót menningartengdu heilsuhóteli! Áfram heilsuverndLeikhús Sigríður Sigurjónsdóttir Bragi Þór Jósefsson "Án þess að ég vilji kallast afturhaldsseggur þá vildi ég helst hafa heilsuverndarstöðina áfram á sínum stað," segir Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. "Mér finnst gott að koma þangað, allt öðruvísi og betra en að koma á aðrar læknastofur." Sigríði þykir húsið fallegt og segir það hluta af borgarlífinu að koma þangað, eins og í önnur falleg hús í borginni."Mér finnst gott að versla á Laugavegi og mér finnst gott að fara í mæðraskoðun á Barónstíginn," segir hún og hlær. Þurfi núverandi starfsemi að víkja vill Sigríður helst að einhver önnur opinber starfsemi verði í húsinu og stingur upp á bókasafni eða skóla. Ef nauðsynlegt er að selja það gæti hún hugsað sér einkarekna heilbrigðisþjónustu. "Annars er mögulegt að þarna verði hótel í framtíðinni eða höfuðstöðvar einhvers stórfyrirtækisins. En um leið lokast  byggingin almenningi og það þætti mér miður," segir Sigríður, sem vonar innilega að engum detti í hug að rífa húsið og byggja nýtt. "Mér finnst upplagt að koma á fót leikhúsi í húsi Heilsuverndarstöðvarinnar," segir Bragi Þór Jósefsson, ljósmyndari hjá Fróða. "Umhverfið er ævintýralegt og gæti orðið enn ævintýralegra ef vatni væri hleypt undir brýrnar og turninn lýstur upp." Bragi segist ekki vita hvort hugmyndin sé raunhæf, það er hvort mögulegt sé að breyta húsinu í leikhús, enda hefur hann ekki kynnt sér innviði þess að marki. "Og ég hef heldur ekki hugmynd um hvort þetta sé raunhæft út frá rekstrarlegum forsendum og ætla mér ekki bera neina ábyrgð á þessu."Bragi segist ekki sjá fyrir sér einhverja tiltekna tegund leikhúss við Barónstíginn, það sé fyrst og fremst möguleikinn á ævintýralegri umgjörðinni sem hann sjái í húsinu.Og ef hugmyndin þykir algjörlega út úr kú dettur honum í hug að breyta húsnæðinu í skóla. "Þarna gæti verið ósköp sætur og skemmtilegur barnaskóli sem hægt væri að tengja við Austurbæjarskóla með einhverjum hætti." HótelHeilsuhæli Guðmundur Sighvatsson Margrét Rósa Einarsdóttir "Ég sé fyrir mér að þarna geti orðið lúxushótel í framtíðinni," segir Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri Austurbæjarskóla sem stendur handan Barónstígsins og svo að segja gnæfir yfir Heilsuverndarstöðinni. Hann tekur raunar fram að það sé ekki hans heitasta ósk að þar verði hótel. "Þetta er óskaplega fallegt hús og þarf að skipa virðulegan sess í borgarlífinu. Það snertir þá sem það muna og þekkja." Guðmundur telur að húsið sé illa farið og á því þurfi að gera margvíslegar lagfæringar. Telur hann brýnt að í þær verði ráðist hið fyrsta. Dekra þurfi við húsið. "Þar sem ríki og borg eru nú ekki kunn af að fara vel með húsin sín væri kannski heppilegast að það færi í einkaeign. Þá er tryggt að því verði haldið vel við."Guðmundur segir að hótel í húsinu gæti orðið glæsilegt og nefnir að anddyri þess sé virðulegt og ekki síður stiginn sem liggur upp á efri hæðir. "En ef ekki hótel þá dettur mér helst í hug starfsemi sem tengist heilsu, menningum eða listum. Húsið er allt eitt listaverk." "Ég held að húsið sé tilvalið fyrir heilsuhæli upp á rússneskan máta," segir Margrét Rósa Einarsdóttir, húsráðandi í Iðnó. Hún sér fyrir sér að fólk komi til lengri eða skemmri dvalar og hefur nokkuð mótaðar hugmyndir um hvernig starfsemin eigi að vera. "Þetta á að vera alls herjar heilsubæli þar sem fólk getur hreinsað sig andlega og líkamlega og fengið bót flestra meina. Þarna á hvorki að vera sími né sjónvarp, fólk á að fá algjöran frið frá umheiminum."Margrét Rósa leggur áherslu á að enginn lúxus eigi að viðgangast á heilsuhælinu, þar eigi starfsfólkið að vinna í hvítum einkennisklæðnaði og gestir og sjúklingar klæðast gráum, þægilegum jogginggöllum. "Ég vil engin smartheit," segir hún.Vísir að slíku heilsuhæli er nú þegar rekinn í Hveragerði og segir Margrét Rósa Heilsuhælið við Barónstíg eiga að vera í svipuðum dúr en ganga lengra í flestum efnum.Hún þekkir húsið nokkuð vel, og segir það margslungið en nauðsynlegt sé að koma því í upprunalegt horf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×