Innlent

Lögfræðiálit um Ríkisendurskoðun

Lögfræðiálit sem stjórnarandstaðan kallaði eftir vegna einkavæðingar ríkisbankanna og aðkomu forsætisráðherra að henni verður kynnt á morgun. Lögfræðingarnir draga í efa að Ríkisendurskoðun hafi sinnt hlutverki sínu. Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður vann álitið ásamt öðrum lögfræðingi, Birgi G. Magnússyni, lektor í lögfræði við Háskólann á Bifröst. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna neituðu að svara öllum spurningum um innihald álitsins í dag en sögðu að það yrði að öllum líkindum sent út á fjölmiðla á morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu snýr álitið að skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu bankanna á sem kom út árið 2002 og minnisblaði ríkisendurskoðanda um hæfi Halldórs Ásgrímssonar til að koma á málinu nú í byrjun sumars. Ýmis lagaleg álitaefni eru þar að mati stjórnarandstöðunnar sem nauðsynlegt er að svör fáist við. Þingmenn hafa ekki fengið álitið í hendur heldur einungis formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Búist er við að þeir fái að kynna sér það í kvöld áður en það verður gert opinbert. Ekki var spurt beint um lagalegt álit lögfræðinganna á hæfi forsætisráðherra til að koma að málinu heldur leitað svara við nokkurum spurningum, þar á meðal hversu mikil eignatengsl þurfi að vera til að menn teljist vanhæfir og svo framvegis. Leitast er við að svara þessum spurningum út frá stjórnsýslulögum. Samkvæmt stjórnsýslulögum mega eignatengsl ekki vera til staðar til að menn teljist hæfir. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er bent á það  í álitinu að Ríkisendurskoðun hafi farið í málið árið 2002 en látið hjá líða að skoða þessi eignatengls forsætisráðherra þótt upplýsingar hafi þá þegar komið fram í fjölmiðlum. Dregið er í efa að Ríkisendurskoðun hafi sinnt hlutverki sínu sem skyldi við rannsókn málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×