Innlent

Matvöruverð aftur hækkandi

Íslenskir neytendur geta átt von á enn frekari hækkunum á matvöruverði á næstu mánuðum. Vísitala neysluverðs hækkaði um tvö prósent síðast þegar hún var mæld og gert er ráð fyrir enn frekari hækkun þegar vísitalan verður birt í næsta mánuði.  Frá áramótum og fram í maí á þessu ári lækkaði matarliðurinn í neysluvísitölunni um tíu prósent. Að sögn verkefnisstjóra verðlagseftirlits ASÍ má rekja lækkun vísitölunnar til gríðarlegs verðstríðs á matvörumarkaðnum og hluta til vegna styrkrar stöðu íslensku krónunnar. Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónuss segir að verðstríð lágvöruverðsverslana sé ekki lokið - langt því frá. Hann segir að neytendur ættu að vita allt um það. Aðspurður um ástæðuna fyrir hækkun matarliðs neysluvísitölunnar segir hann að það séu mismunandi erð á vörunum þegar vísitalan er mæld. Það er því ljóst að gósentíð neytendanna er að líða undir lok, þ.e. þegar verðstríð smávöruverslananna var í hámarki. Henný Heinz verkefnisstjóri verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands segir margar vörur hafa verið seldar á mjög lágu verði þegar verðstríð stóð sem hæst. Langt undan kostnaðarverði í mörgum tilvikum þannig það var viðbúioð að þetta myndi ganga til baka að einhverju leyti. Hún segir jafnframt að í síðustu vísitölumælingum Hagstofunnar að matar og drykkjarliðurinn hafi hækkað um 2-3%. Einnig bendir hún á að líklegt sé að frekari hækkanir verði sýnilegar í næstu mælingum. Aðspurð segist Henný einnig halda að það sé raunhæft að gera ráð fyrir að þetta haldi áfram að ganga til baka og verð á mörgum vörum haldi áfram að ganga til baka að einhverju leyti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×