Innlent

Undrast áhugaleysi Íslendinga

Álverið á Reyðarfirði þarf á næstunni að gera þjónustusamninga fyrir milljarða króna á ári. Talsmenn Alcoa Fjarðaáls undrast að erlend fyrirtæki sýna þessum risaviðskiptum mun meiri áhuga en íslensk. Þegar rekstur álversins hefst verða ekki aðeins til um 400 ný störf á Reyðarfirði heldur álíka mörg störf í öðrum fyrirtækjum sem munu þjónusta álverið á einn eða annan hátt. Ráðamönnum Alcoa Fjarðaáls finnst sem Íslendingar séu værukærir gagnvart þeim tækifærum sem þarna bjóðast að sögn Hrannar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa fyrritækisins. Alcoa mun á næstunni að gera hátt í fimmtíu mismunandi samninga um aðkeypta þjónustu. Listinn er langur og fjölbreyttur. Á sviði umhverfismála meðal annars um kerbrot, þrif á iðnaðarsvæðum, umhverfisvöktun og meðhöndlun sorps, um snjómokstur, garðyrkjuþjónustu og skipaflutninga, fataþvott, rekstur mötuneytis, heilbrigðisþjónustu, launabókhald og flutning starfsmanna, öryggisgæslu, endurskoðun, lögfræðiþjónustu og svo um margþætta viðhaldsþjónustu, svo sem á sviði rafmagns og véla af ýmsu tagi. Þetta verða samningar um háar fjárhæðir, eða milljarða á hverju einasta ári að sögn Hrannar. Hún segir að Alcoa hafi bent íslenskum fyrirtækjum á þessi tækifæri því Alcoa vilji gjarnan að þessar upphæðir skili sér inn í samfélagið hér. Mikil uppbygging íslenskra fyrirtækja á Reyðarfirði að undanförnu ber þess þó glögg merki að mörg þeirra eru þegar búin að bretta upp ermar vegna stóriðjuframkvæmdanna. Meðal þeirra er Saumastofa Höllu sem býður upp á fatamerkingar. Það er jú meðal þess sem verktakar þurfa á að halda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×