Innlent

Flug til New York í allan vetur

Icelandair mun fljúga til New York í áætlunarflugi í allan vetur en undanfarin tvö ár hefur félagið gert hlé á flugi sínu í nokkrar vikur yfir háveturinn. Icelandair mun hins vegar ekki bjóða upp á flug til og frá Minneapolis í um tvo mánuði í vetur, á tímabilinu frá 9. janúar til 13. mars 2006.  „Við teljum að afkoma af fluginu til New York geti orðið betri í vetur en við höfum séð fram á að undanförnu og það er mjög jákvætt. Hins vegar hafa forsendur vetrarflugsins til Minneapolis breyst nokkuð og við teljum rétt að gera hlé á starfsemi okkar þar á þeim tíma sem minnst eftirspurn er,“ segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, um þessa ákvörðun. Icelandair heldur uppi reglubundnu áætlunarflugi milli Íslands og 22 áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum. Auk New York og Minneapolis flýgur félagið til Boston, Orlando, Baltimore/Washington og San Francisco í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×