Innlent

Eyjagos: Fyrsta húsið komið í ljós

Fyrsta húsið í Brekkunni í austurbæ Vestmannaeyja sem fór undir gjósku í gosinu 1973 kom í ljós í dag. Uppgröftur húsanna hófst fyrir viku. Undirbúningur að verkinu hefur staðið yfir síðastliðin þrjú ár og er talið að uppgröfturinn taki langan tíma þar sem hvert hús verður grafið upp með handafli eða léttum vinnuvélum. Er farið að nefna svæðið Pompei norðursins með tilvísun í eitt frægasta eldgos sögunnar. Fyrsta húsið hefur þegar litið sólarljósið eftir rúmlega 30 ára dvöl undir myrkrum vikrinum. Kemur það mönnum á óvart í hvers konar ástandi húsin eru eftir þessa löngu dvöl. Viktor Pétur Jónsson, einn þeirra sem starfa að uppgreftrinum, segir það stórfenglegan atburð að sjá hversu heilleg húsin eru; málningin, rúðurnar og hlutir inni í húsunum. Íbúar Vestmannaeyja streyma á svæðið til að skoða og uppgröfturinn rifjar upp minningar hjá þeim sem bjuggu á svæðinu þegar ósköpin dundu yfir. Ein þeirra, Kristín Bergsdóttir, segir tilfinninguna skrítna en finnst þetta spennandi og er nokkuð ánægð með framtakið. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×