Innlent

Misnota flóttamannasamning Sþ

Langflestir hælisleitenda sem koma hingað til lands eru að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Þetta segir sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Oft getur reynst erfitt að finna réttar upplýsingar um viðkomandi þar sem í mörgum tilfellum er gefið upp rangt nafn við komuna til landsins. Embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli rannsakar flest þeirra mála sem koma upp vegna umsókna hælisleitenda um stöðu flóttamanna á Íslandi. Jóhann R. Benediktsson sýslumaður segir rannsókn þessara mála flókna. Nú sé verið að reyna að afla upplýsinga um hver viðkomandi einstaklingur sé og hver saga hans sé. Fortíð þeirra einstaklinga sem hingað koma og sækja um stöðu flóttamanna getur því verið algerlega hulin þegar þeir gefa upp röng nöfn. Jóhann kveðst vissulega hafa áhyggjur af því ef þetta fólk sé komið inn í okkar samfélag án þess að í raun sé vitað hvaða fólk þetta sé. Jóhann segir að aðbúnaður hælisleitenda hérlendis sé mun betri en í öðrum löndum. Yfirleitt séu hælisleitendurnir geymdir í sérstökum búðum og fái ekki að fara frjálsir ferða sinna. Fjölmörg mál koma upp á hverju ári þar sem hælisleitendur gefa upp röng nöfn við komuna til landsins. Jóhann segir að ekki megi gleyma því að í langflestum tilfella séu þetta ekki hælisleitendur heldur sé þetta fólk að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og leita sér skjóls í öðru landi á fölskum forsendum. „Vissulega á þetta fólk bágt og það er að leita að betra lífi. Það bara gilda ákveðnar reglur um það hvernig fólk fer milli landa og hvernig þú öðlast réttindi í öðru ríkjum og það er ekki gert með þeim hætti sem flest af þessu fólki er að gera,“ segir Jóhann. Einn þeirra hælisleitenda í Keflavík sem sakaði stjórnvöld um slæma meðferð og seinagang óskaði eftir hæli hér á landi í fyrra. Þegar lögregluyfirvöld fóru að rannsaka mál mannsins lét hann sig hverfa úr landi. Eftir það fréttist svo af manninum í Hollandi þar sem hann óskaði einnig eftir hæli sem flóttamaður. Þegar yfirvöld þar í landi fóru að rannsaka mál hans lék hann sama leikinn og lét sig hverfa. Það var svo í janúar á þessu ári sem hann kom aftur hingað til lands og var hann þá undir öðru nafni en þegar hann kom hingað fyrst. Hann óskaði eftir atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi sem ekki fékkst. Maðurinn hefur nú farið fram á hæli sem flóttamaður hér á landi öðru sinni en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hann nú þegar stöðu flóttamanns í Þýskalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×