Innlent

Samúð um allan heim

Samúðin með fórnarlömbum hamfaranna greip um sig um allan heim og fólk sameinaðist í að styðja við þá sem stóðu eftir án heimils, lifibrauðs og ástvina. Framlög almennings á Íslandi námu 231 milljón króna. Neyðarhjálp úr norðri, sem haldin var um miðjan janúar, var einhver sú umfangsmesta fjársöfnun sem haldin hefur verið á Íslandi. 121 milljón króna safnaðist og auk þess söfnuðust 110 milljónir áður átakinu var ýtt úr vör. Þegar er búið að verja stórum hluta fjárins og hefur Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS-barnaþorpin og UNICEF séð um að ráðstafa því. Matur, lyf, vatn, skýli fyrir heimilislausa og sálræn aðstoð er meðal þess sem það hefur skilað og næstu árin verður hrint í framkvæmd áætlunum um uppbyggingu. Þessi söfnun var í raun einstök segir Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, og segir hana helst minna á söfnunina í kjölfarið á snjóflóðunum á Vestfjörðum fyrir áratug. „Það var mikil gleði fyrir okkur sem vinnum að þessu að finna svona samstöðu fyrir líðandi bræður úti í heimi,“ segir Jónas. Í skýrslu bresku góðgerðarsamtakanna Oxfam segir að stór hluti fjárframlaga til handa fórnarlömbum flóðbylgjunnar hafi farið til þeirra sem auðugastir eru en fátækir, sem þurftu einna helst á hjálp að halda, fengu minnst. Forsvarsmenn íslensku samtakanna fullyrða þó að fjármunir frá íslensku þjóðinni hafi skilað sér. Jónas segir að þau hafi valið verkefni sem hægt sé að líta mjög vel eftir. Aðstandendur söfnunarinnar hafa látið gera myndband sem þakklætisvott til allra þeirra sem lögðu málefninu lið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×