Innlent

Íslendingar gáfu 230 milljónir

Íslendingar gáfu yfir 230 milljón króna til styrktar fórnarlömbum hamfaranna við Indlandshaf en endanlegar tölur liggja nú fyrir. Alls safnaðist 121 milljón króna í landssöfnuninni Neyðarhjálp úr norðri, sem haldin var um miðjan janúar, en áður en sú söfnun fór af stað höfðu safnast 110 milljónir króna. Neyðarhjálp úr norðri var einhver umfangmesta fjársöfnun sem haldin hefur verið á Íslandi. Barnaheill, „Save the Children“ á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS-barnaþorpin og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fengu það verkefni að veita fjárstuðningnum til hamfarasvæðanna. Í frétt frá samtökunum kemur fram að þegar er búið að verja stórum hluta fjárins til neyðarhjálpar og á næstu misserum verði áætlanir um uppbyggingu á flóðasvæðum settar í framkvæmd. Fulltrúar samtakanna gera nánari grein fyrir ráðstöfun fjármunanna á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Þjóðmenningarhúsinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×