Innlent

Sakar stjórnvöld um skilningsskort

Páll Skúlason fráfarandi rektor Háskóla Íslands gagnrýndi skilningsskort fjármálaráðuneytis á uppbyggingu rannsóknaháskóla í ræðu sinni við brautskráningu kandídata í Egilshöll í gær. Þetta var síðasta brautskráning Páls en jafnframt sú fjölmennasta í sögu Háskólans en 801 kandídat var brautskráður. Páll vísaði til samnings um eflingu rannsókna sem gerður var árið 2000 en ríkisvaldið stóð ekki við vegna kostnaðar. Rektor fjallaði líka um nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Háskólans, sem sýndi að í samanburði við erlenda skóla hefði hann náð ótrúlegum árangri miðað við krappan fjárhag. Samkvæmt skýrslunni þarf skólinn hins vegar verulega aukin framlög og telur Páll að hann þurfi um einn milljarð króna til viðbótar ef vel ætti að vera. Þá ræddi Páll gífurlega uppbyggingu í Háskólanum en nemendafjöldi hefur aukist mjög á síðustu árum, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Námsleiðum hefur fjölgað úr 109 í 234 frá árinu 1997 og rannsóknir fræðimanna hafa aukist um fjörutíu prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×