Innlent

Segir Ólínu leggja sig í einelti

"Engar kvartanir höfðu borist, svo þetta er bara einelti sem heldur áfram," segir Ingibjörg Ingadóttir, enskukennari við Menntaskólann á Ísafirði, um þá ákvörðun Ólínu Þorvarðardóttur skólameistara að fá óháðan aðila til að fara yfir vorpróf hennar. Ingibjörg segir að Ólína sé að reyna að leika sama leik og í desember þegar svipað mál kom upp en dómsátt náðist í því í apríl. Félag framhaldsskólakennara sendi menntamálaráðuneytinu stjórnsýslukvörtun í vikunni vegna ákvörðunar Ólínu. Samkvæmt 8. grein í aðalnámskrá framhaldsskólanna er námsmat á ábyrgð kennara og því brot á lögum að fá þriðja aðila til að fara yfir prófin. Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að ef áform Ólínu nái fram að ganga og að hún veiti Ingibjörgu áminningu, líkt og gerðist í desember, sé annað dómsmál í uppsiglingu. "Í þessari stjórnsýslukvörtun krefjumst við þess að ráðuneytið stöðvi tafarlaust þetta ferli sem er farið af stað fyrir vestan. Við vonum auðvitað að ráðuneytið hafi vit fyrir Ólínu," segir Aðalheiður. "Ég treysti því bara að ráðuneytið tali við sinn undirmann því hún er að fara fram úr öllum venjulegum vinnubrögðum," segir Ingibjörg Ingadóttir en ekki náðist í Ólínu Þorvarðardóttur vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×