Innlent

Tíuþúsundföld eyðing

Samhliða því að flutningar á sjó hafa aflagst smám saman undanfarin ár hafa þungaflutningar um þjóðvegi landsins margfaldast. Viðmiðunartölur gera ráð fyrir að vegslit af völdum þungs bíls á borð við vöruflutningabíl sé um það bil 10 þúsund sinnum meira en af völdum fólksbíls. Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri í umferðardeild Vegagerðarinnar, segir umferð um þjóðvegi landsins hafa stóraukist síðustu ár og það kunni að fela þá aukningu sem orðið hefur í þungaflutningum. Hann segir mælingar sem gerðar voru í Hvalfirði árin 1990 og 2002 til dæmis einungis sýna hlutfallsaukningu þungaumferðar upp á eitt prósentustig, úr um sjö í átta prósent af almennri umferð. Á fimmtán ára tímabili, frá 1989 til 2004 segir hann hins vegar umferð þungra bíla á hringveginum við gatnamót Akranesvegar hafa þrefaldast, farið úr um 95 í um 290 þunga bíla á sólarhring. "Þó svo að þungaumferð hafi stóraukist, þá drukknar sú aukning í fólksbílaaukningunni," segir hann. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segir vegskemmdir af völdum þungaflutninga hafa verið skoðaðar en fátt sé nýtt í þeim efnum. "Flutningar hafa verið að færast af sjó upp á þjóðvegakerfið síðustu fimmtán ár. Um síðustu áramót gerðist ekki annað en síðasta skipið var að hætta." Vegsig segir Jón hins vegar ekki skrifast á þungaflutinga, heldur skipti þar undirlag meira máli. Vegsig og mishæðóttir vegir séu því eilífðarvandamál að fást við. "Hitt er svo annað mál að þungir bílar brjóta vegakerfið heilmikið niður og við því verðum við bara að bregðast."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×