Innlent

Fundað um ágreiningsmál

Forsvarsmenn Geymis ehf. og ASÍ funduðu í gær vegna máls pólska verkafólksins sem dvalið hefur hér á landi við störf að undanförnu og telur sig hlunnfarið. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að fundurinn hafi verið gagnlegur og nú sé unnið úr þeim gögnum sem lögð voru fram á fundinum. "Þeir lögðu fram gögn þar sem fram kom að þeir höfðu greitt vörsluskatta auk þess sem þeir lögðu fram ýmislegt varðandi þá afstöðu sem þeir hafa til þeirra launa sem fólkið á rétt á að fá. Við óskuðum eftir að gert yrði upp við fólkið á grundvelli okkar útreikninga en við ætlum að kynna okkur þeirra gögn,"sagði Halldór. Eiríkur Elís Þorláksson, lögmaður Geymis, sagði að hann hefði komið gögnum frá umbjóðanda sínum á framfæri, þar á meðal forsendum fyrir launaútreikningum. "Okkar hugur stendur til að leysa þetta mál á sem bestan hátt fyrir alla aðila," sagði Eiríkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×