Innlent

Tíu ár frá komu TF-LÍF

Í dag eru tíu ár síðan björgunarþyrlan TF-LÍF kom til landsins. Landhelgisgæslan fagnar mörgum stórafmælum í ár. Því var fagnað mjög þegar TF-LÍF kom til landsins 23. júní árið 1995. Mikið var búið að fjalla um þörfina á annarri björgunarþyrlu og loks var ráðist í að kaupa TF-LÍF, næstum alveg nýja og fína, fyrir um átta hundruð milljónir króna. Það dreymir eflaust marga unga menn og konur um að komast í þyrluflugmannssætið því það er dálítil hetjuímynd sem fylgir þeim sem þar sitja þegar á reynir. Einn þeirra sem þar hefur setið, Benóný Ásgrímsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, kann svo sannarlega að meta þetta tíu ára afmælisbarn. Hann segist hafa farið ýmsar erfiðar ferðir á henni og sambúðin hafi reynst afar farsæl til þessa. Benóný flaug bæði TF-SIF fyrir tuttugu árum og TF-LÍF fyrir tíu árum til landsins og hefur eytt ófáum stundum með þeim báðum síðan. En er nokkur leið að áætla hvað TF-LÍF hefur bjargað mörgum mannslífum á þeim áratug sem hún hefur verið í þjónustu Landhelgisgæslunnar? Benóný segist þurfa að fara í bækur til þess að kynna sér það nákvæmlega en hann geti fullyrt að það séu tugir mannslífa. Benóný segir erfitt að segja til um hversu lengi björgunarþyrlurnar eigi að endast en ef viðhaldið sé gott geti þær vel þjónað sínum tilgangi í tuttugu til þrjátíu ár. Og flugstjórinn segir þyrlurnar tvær, SIF og LÍF, mjög mismunandi. Þegar þær séu bornar saman minni þær á sportbíl og trukk. Litið sé á TF-SIF sem sportbíl en þegar virkilega á reyni sé gott að fara á trukknum, TF-LÍF. En það er ekki nóg með að TF-LÍF sé tíu ára heldur varð TF-SIF tvítug í apríl, Fokkerinn er að verða þrítugur, bæði þyrlusveitin og varðskipið Týr verða fertug í ár og flugdeildin fagnar fimmtíu ára afmæli. Svo það voru engar kökur á boðstólum í dag á afmælisdegi Lífar en starfsmennirnir tilkynntu að boðið yrði til sameiginlegrar stórveislu í haust enda mörgu að fagna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×