Innlent

Gæslumenn framtíðarinnar

Heppnir og áhugasamir tíundubekkingar um land allt eru nú sem fyrr varðskipsnemar hjá Landhelgisgæslunni. Á dögunum kom varðskipið Týr í höfn í Reykjavík með sex krakka sem dvalið höfðu um borð í fimmtán daga. Kynntust þeir daglegum verkum Gæslunnar til sjós og gengu í flest störf í vélarrúmi, eldhúsi, á þilfari og stjórnpalli. "Það eru sérstakir og skemmtilegir túrar þegar krakkarnir koma um borð og afskaplega ánægjulegt að hafa þá með," segir Thorben Lund yfirstýrimaður á Tý. "Vanalega fá þeir smá fiðring í magann þegar lagt er af stað, vita auðvitað ekki hvað bíður, en koma svo skælbrosandi í land og vilja helst fara annan túr," bætir hann við. Tilgangurinn er ekki aðeins að skemmta krökkunum og stytta þeim stundir í sumarleyfinu heldur býr annað og meira að baki. "Ein hugsunin er að kynna þessi störf fyrir ungviðinu svo við fáum endurnýjun í stofninn," segir Thorben. Það er sum sé verið að ala upp framtíðarstarfsmenn Landhelgisgæslunnar. Sjálfur hóf Thorben störf í Gæslunni sextán ára og hefur nú unnið þar í 21 ár. Undir lok síðasta túrs Týs kom sonur Thorbens, Bergþór, um borð og undi sér vel. "Hann er tíu ára og upprennandi Landhelgisgæslumaður. Hann fann ekki fyrir sjóveiki þó ekki væri gott í sjóinn. Sjálfur var ég hins vegar sjóveikur þegar ég fór mína fyrstu túra," segir Thorben yfirstýrimaður.
Pálmi Jónsson 2. stýrimaður á Óðni kennir þeim Rakel S. Jónasdóttur og Kristjáni K. Kristjánssyni undirstöðuatriði siglingafræðinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×