Innlent

Eitt tjald risið við Kárahnjúka

Aðeins eitt tjald virðist risið við Kárahnjúka þar sem mótælendur sögðust ætla að reisa tjaldbúðir. Að sögn lögreglunnar á Egilstöðum eru mótmælin ekki orðin að neinum mótmælum ennþá, enda kallist það ekki tjaldbúðir þegar búið sé að tjalda einu tjaldi. Lögreglumenn á vakt segja að síðast þegar fréttist hafi verið komið eitt tjald á svæðið, einn bíll og eitt mótmælaspjald. Þá hafi heyrst af vonsviknum ferðamönnum sem hafi farið á svæðið til þess að fylgjast með mótmælendunum en þeir hafi gripið í tómt og ekki rekist á nein mótmæli, heldur bara auðnina við Jökulsá á Dal. Tjaldið er staðsett við Sauðá sem er í jaðri framkvæmdasvæðisins, um þrjá kílómetra frá stíflusvæðinu. Kalt hefur verið á Kárahnjúkum undanfarna daga og hitinn þar var aðeins um tvær gráður í nótt og því hefur væntanlega verið kalt í tjaldinu sem búið er að reisa. Á heimasíðunni Saving Iceland er hins vegar öllu meira gert úr aðgerðunum hingað til. Þar segir að fólk sé þegar farið að streyma upp á Kárahnjúka og verið sé að finna tjaldbúðunum stað. Þar er talað um að 2-4 daga taki að koma búðunum upp og kann það að vera ástæða þess að aðeins eitt tjald hafi risið enn sem komið er. Ekki náðist í mótmælendurna fyrir hádegisfréttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×