Innlent

Gagnrýnir útboð Herjólfs

Grímur Gíslason, fyrrverandi formaður Herjólfs, gagnrýnir vinnubrögð Vegagerðarinnar vegna útboðs Herjólfs árið 2000. Vegagerðin neitaði honum sífellt um gögn um tilboð Samskipa og Herjólfs í reksturinn þar til úrskurðarnefnd um upplýsingamál skipaði henni að afhenda þau. Grímur segist ósáttur við að Samskip, sem bauð lægst og fékk samninginn, hafi fengið mun meira borgað en útboðið sagði til um. Grímur segir Samskip hafa á síðasta ári átt að hafa fengið greiddar um 130 milljónir króna en fengið um og yfir 200 milljónir greiddar. Á þessum fjórum árum sem liðin eru frá því samningurinn var gerður hafi fyrirtækið því fengið 160 milljónir umfram það sem þeir áttu að fá samkvæmt samningi og segir Grímur skítalykt af málinu. Hann kveðst ósáttur við það þegar ríkisstofnun fari út í útboð, fái tilboð í ákveðinn rekstur, hlaupi síðan út úr tilboðinu um leið og það geti og borgi svi langtum meira en boðið er í reksturinn. Grímur segir að þegar rekstur Herjólfs var boðinn út á sínum tíma hafi Samskip verið með lægsta tilboðið. Hann segir þá sem til þekktu hafa vitað að tilboðið væri mjög óraunhæft því tilboði hafi þó verið tekið en síðan hafi Vegagerðin verið að bæta þeim upp inngreiðslum, aukagreiðslum og svo með því að hækka einingarverð sem var klárt í tilboðið og borgar nú margfalt það verð sem boðið var í upphafi. Grímur segist ekki vita hver ástæðan fyrir þessu er en kveðst telja að það sé einhver „drulla í pottinum“ Og Grímur vill að málið verði rannsakað. Hann segir menn hafa fengið dóma og fengið að fjúka fyrir að misfara með opinbert fé og þetta sé ekkert annað en það, og það gróft dæmi. Jón Rögnvaldsson Vegamálastjóri segir það hárrétt hjá Grími að greiðslur til Samskipa hafi verið hærri en upphaflegt grunsamningar gerði ráð fyrir. Hann segir þó að það hefði gerst, sama hver hefði fengið samninginn, aðstæður breytist og að tala um spillingu sé af og frá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×