Innlent

Óbreyttur heildarkvóti

Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra heldur sig við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar og heimilar veiðar á 198 þúsund tonnum af þorski og 105 þúsund tonnum af ýsu á næsta fiskveiðiári. Heildarkvótinn í þorskígildistonnum verður óbreyttur eða 354 þúsund tonn. Miðað við óbreytt gengi krónunnar gerir sjávarútvegsráðherra ráð fyrir að útflutningsverðmæti verði um 130 milljarðar króna á næsta fiskveiðiári eða átta milljörðum króna meiri en á því fiskveiðiári sem nú stendur yfir. Sjávarútvegsráðherra heimilar veiðar á 80 þúsund tonnum af ufsa, 57 þúsund tonnum af karfa, 15 þúsund tonnum af grálúðu og 13 þúsund tonnum af steinbít. Þetta er í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar fyrr í mánuðinum. Hins vegar heimilar sjávarútvegsráðherra 75 próentum meiri skrápflúruafla en fiskifræðingar ráðlögðu, 60 prósentum meiri sandkolaafla en ráðlagt var og 25 prósentum meiri afla af skarkola en Hafrannsóknastofnunin taldi ráðlegt að veiða. Spurður um það hvort þessar tegundir þoli veiðar umfram ráðgjöf frekar en þorskur eða ýsa svarar Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra að miklar sveiflur hafi verið í ráðgjöfinni varðandi sumar þeirra. "Líka hefur það komið fyrir að menn hafa ekki veitt upp í heimildirnar og talið hagkvæmara að flytja kvótann yfir í aðrar og verðmætari tegundir. Þetta er líka afli sem kemur upp með öðrum tegundum. Þótt ekki sé farið allskostar eftir ráðgjöfinni að því er þessar tegundir varðar vísa ákvarðanarinar í sömu átt og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar." Árni kveðst ekki reyna að beina flotanum í aðrar tegundir þegar útvegurinn sæti kvótaskerðingu í þorski eða öðrum bolfisktegundum. "Enda er skerðingin í þorskveiðunum tiltölulega lítil," segir Árni Mathiesen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×