Innlent

1000 dagar frá síðasta vinnuslysi

Starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga fagna því í dag að 1000 dagar eru liðnir frá því að síðast varð vinnuslys sem leiddi til fjarveru starfsmanns félagsins. Margþætt starf hefur stuðlað að þessum árangri. Aukin áhersla hefur verið lögð á bætta umgengi, þrif og ýmsar merkingar á vinnustaðnum. Merkingarnar snúast um notkun rétts öryggisbúnaðar, varnaðarorð af ýmsu tagi, hvar geyma eigi hin ýmsu tæki og tól, merking gangbrauta o.fl.  Mikil áhersla er lögð á að skrá öll óhappatilvik og hættulegar aðstæður. Þau tilvik eru grannskoðuð og leitað úrbóta. Árangur þessa er að minniháttar óhöppum hefur einnig fækkað umtalsvert. Þá er unnið að því hjá Járnblendifélaginu að innleiða aðferðafræði sem móðurfyrirtæki þess nefnir „Elkem Business System“. Aðferðafræðin á rætur sínar að rekja til Toyota. Áhersla er m.a. lögð á að staðla vinnubrögð og umgengni. Staðlar eru unnir með viðkomandi starfsmönnum og gjarnan settir fram á myndrænan hátt á starfstöðinni. Framkvæmdastjórn Járnblendifélagsins óskar starfsmönnum sínum til hamingju með árangurinn og hvetur þá til að halda áfram á sömu braut.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×