Innlent

Telur ASÍ brjóta meiðyrðalöggjöf

Eiríkur Elís Þorláksson, lögmaður Geymis ehf., segir að mögulegt sé að ASÍ hafi brotið gegn meiðyrðalöggjöf með ummælum sínum um fyrirtækið í gær. Þetta kemur fram í bréfi sem Eiríkur hefur skrifað ASÍ fyrir hönd umbjóðanda síns. Ummælin sem Eiríkur vísar til eru ýmis orð sem látin voru falla í viðtölum við forsvarsmenn ASÍ gær í máli Pólverjanna sem Geymir ehf. réð til vinnu en telja að brotið hafi verið á rétti sínum með ýmsum hætti eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. "Við erum núna að reyna leysa þetta mál með því að eiga fund með þeim starfsmönnum sem eiga í hlut. Okkar vilji hefur alltaf staðið til þess að leysa þetta mál þrátt fyrir þessa aðför ASÍ að málinu. Við höfum óskað eftir því að hitta ASÍ nú aftur eftir að þeir höfnuðu að eiga fund með okkur í fyrradag. Við vonumst til þess að þeir verði við þeirri beiðni okkar," segir Eiríkur. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, hafnar því að ummæli sem hann og aðrir forsvarsmenn ASÍ hafi haft í frammi brjóti á nokkurn hátt í bága við meiðyrðalöggjöf. "Við stöndum við allt það sem sagt hefur verið fram að þessu," segir Halldór. Hann segir að ASÍ hafi borist bréf lögmanns Geymis og fallist verði á fund með forsvarsmönnum þess og lögmanni í dag. "Það hafa komið fram ýmis ný gögn í málinu sem hafa orðið til þess að við erum tilbúnir að eiga fund með fyrirtækinu. En það sem kannski mestu máli skiptir er að mér hefur borist það til eyrna að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi gert upp ýmis vangoldin gjöld sem er ánægjulegt. Það staðfestir að okkar vinna er að skila árangri og það er ánægjulegt. Við erum núna að reikna út hversu miklar kröfur starfsmenn fyrirtækisins eiga á hendur fyrirtækinu og munum ræða það þegar við hittum þá," segir Halldór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×