Innlent

Hægðu á þér

„Hægðu á þér – tökum slysin úr umferð“ er yfirskrift þjóðarátaks Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum sem félagið stendur nú fyrir fimmta sumarið í röð. Að þessu sinni er athyglinni beint að þeirri staðreynd að beint samhengi er á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. Til að vekja athygli á afleiðingum umferðarslysa gengst VÍS fyrir auglýsingaherferð næstu vikurnar í útvarpi og sjónvarpi þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum um leið og vakin er athygli á nýju leiðbeinandi umferðarmerki sem Vegagerðin byrjar að setja upp innan tíðar á hættulegum vegaköflum á landinu, m.a. við hina svokölluðu svartbletti þar sem slysahætta er mikil. Sem fyrr leggja fórnarlömb umferðarslysa þjóðarátaki VÍS lið. Að þessu sinni segja fjórir einstaklingar, tvær konur og tveir karlar, sögu sína til að minna á að slysin henda alla, unga sem aldna. Alls hafa 13 einstaklingar látið lífið í 11 umferðarslysum það sem af er þessu ári, þar af þrír um nýliðna helgi, en alls létust 23 einstaklingar í 20 umferðarslysum í fyrra. Níu af 13 banaslysum á þessu ári hafa orðið í dreifbýli, eða tæp 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×