Innlent

Íslenskir bændur styrktir mest

Íslenskir bændur fá 69 prósent tekna sinni í formi opinberra styrkja og er það hæsta hlutfall allra þjóða innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Næst á eftir bændum á Íslandi koma norskir og svissneskir bændur, þar sem opinberir styrkir eru um 68 prósent af tekjum bænda. Framleiðslustyrkir til íslenskra bænda eru jafnframt meðal þeirra hæstu sem fyrirfinnast í ríkjum OECD. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá stofnuninni og að meðalhlutfall ríkisstyrkja af tekjum bænda í löndunum þrjátíu, sem að stofnuninni standa, er um þrjátíu prósent. Íslenskir bændur fá því þrefalt hærra hlutfall ríkisstyrkja en bændur í OECD ríkjunum að meðaltali. Bændur í Ástralíu og Nýja-Sjálandi fá til að mynda fimm prósent af tekjum sínum í formi styrkja og fá því íslenskir bændur fjórtán sinnum hærra hlutfall ríkisstyrkja en andfætlingar okkar. Í skýrslunni segir að frá því 1986-88 hafi orðið lítil framför í stefnumótun ríkisstyrkja til bænda á Íslandi og lítil lækkun hafi verið á framleiðslustyrkjum. Þá gagnrýnir stofnunin sérstaklega styrkjakerfið í mjólkurframleiðslu á Íslandi sem hún segir skekkja markaðsstöðu mjólkurvara og draga úr framleiðslu. Styrkir til bænda hafa staðið í stað undanfarinn áratug þrátt fyrir að almennt hafi verið dregið úr framleiðslustyrkjum til bænda. OECD hvetur til þess að ríkisstyrkir til bænda verði gegnsæir í framkvæmd og markmiðin með ríkisstyrkjum séu jafnframt skýr og afmörkuð. OECD beinir þeim tilmælum til Íslendinga að dregið verði úr ríkisstyrkjum til bænda og að aðgangur að markaði verði gerður auðveldari. Einnig að innleiða ætti nýjar aðferðir í styrkjakerfinu þar sem betur muni takast að beina styrkjunum þangað sem þeirra er þörf án þess að það hafi of mikil áhrif á markaðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×