Innlent

60 skjálftar síðan í nótt

Jarðskjálftahrina hófst rétt vestan við Kleifarvatn á fjórða tímanum í nótt. Sterkasti skjálftinn mældist um 3,5 á Richter. Samkvæmt upplýsingum frá skjálftavakt Veðurstofu Íslands hafa alls um sextíu skjálftar mælst á svæðinu síðan klukkan þrjú í nótt. Klukkan sautján mínútur fyrir átta urðu svo tveir skjálftar upp á 3,4 og 3,5 á Richter með aðeins um sekúndu millibili. Þessir sterkustu skjálftar fundust greinilega í Hafnarfirði, Reykjavík og víðar. Að minnsta kosti fimmtán litlir skjálftar hafa mælst síðan en enginn stærri en 2,4 á Richter. Í ágúst árið 2003 varð hrina skjálfta á svipuðum slóðum en stærsti skjálftinn í þeirri hrinu mældist rúmlega 4 á Richter. Í júlí í fyrra mældist all nokkur hrina við Fagradalsfjall, nokkuð vestar á Reykjanesskaga. Þá mældust nokkur hundruð skjálfta á nokkrum dögum en enginn þeirra náði stærðinni 3. Skjálftar og skjálftahrinur eru því algengar á þessum slóðum og telja jarðvísindamenn hrinuna í morgun ekki boða nein stórtíðindi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×