Innlent

Skyndilokanir vegna kolmunnaveiða

MYND/Eiríkur
Hafrannsóknastofnun hefur nú í fyrsta sinn þurft að grípa til skyndilokana vegna kolmunnaveiða þar sem óheyrilega mikið af þorski hefur veiðst með kolmunnanum, utan allra kvóta. Auk þess endar eðalþorskurinn svo í bræðslu eins og hver annar skítfiskur. Fyrir utan að þessar þorskveiðar bætast við þær veiðar, eða kvóta, sem vísindamenn og stjórnvöld ákveða í verndunarskyni við þorskinn, er honum dælt upp úr skipunum með kolmunnanum og beint í bræðslu þar sem aðeins brotabrot fæst fyrir hann miðað við að vinna hann til manneldis. Þetta spillir því bæði verðmætum og verndunaraðgeðrum. Þau svæði sem nú hefur verið lokað bætast við svæði sem friðað var í fyrra með reglugerð og er á milli Íslands og Færeyja og nær m.a. yfir Rósagarðinn svonefnda. Dæmi eru um að 44 tonn af bolfiski hafi mælst í þúsund tonna kolmunnafarmi og allt að eitt tonn af bolfiski hafi veiðst á togtíma sem gæti þýtt allt að 20 tonn á sólarhring utan kvóta. Það er reyndar ekki allt þorskur því ufsi hefur verið í meirihluta en hlutfall þorsks fer vaxandi. Þetta er tífalt meira magn en viðmiðunarreglur segja til um að megi veiðast af bolfiski með kolmunnanum. Til að koma enn frekar í veg fyrir þessar veiðar tekur ný reglugerð gildi eftir hálfan mánuð þar sem kolmunnaskipin verða skylduð til að kaupa sér eða leigja kvóta af bolfiski á móti þeim bolfiski sem þau veiða með kolmunnanum svo veiðistjórnunaráform og verndunarhagsmunir raskist ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×