Innlent

Grasspretta stutt á veg komin

Grasspretta á túnum bænda er víða tveimur til þremur vikum skemur á veg komin en verið hefur undanfarinn áratug og dæmi eru um að bændur hafi orðið heylausir í vor þar sem þeir þurftu að hafa fé lengur á húsum en undanfarin ár. Þettta ástand má rekja til kuldatíðar fyrir norðan og og sólskins og þurrka fyrir sunnan. Sé litið til undanfarinna ára væri sláttur víða langt kominn á Suðurlandi og sumstaðar búinn en hann er nú rétt að byrja víðast hvar. Dæmi eru um að ekki hafi verið hægt að bera tilbúinn áburð á tún fyrr en í síðustu viku vegna þurrka og þar er því enn nokkuð í sláttinn. Að sögn Jóhanns Ólafssonar hjá Bændasamtökunum er nú útlit fyrir talsvert minni heyfeng en í fyrra auk þess sem heyfirningar eftir veturinn eru víðast hvar mun minni en í fyrravor. Að óbreyttu verði sumstaðar ekki hægt að slá tún nema einu sinni í sumar, hvað þá þrisvar eins og dæmi eru um hin síðari ár. Hann sagði þó allt velta á tíðinni á næstu vikum, ástandið gæti brugðið til hins betra en heyfengur næði þó aldrei meðaltali undanfarinna ára úr þessu. Jóhann segir að þá sé þroski í kornræktinni langt á eftir þroska í meðalári og spurning hvort kornið nái að þroskast í sumar, en þá yrði uppskerubrestur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×