Innlent

Hafnfirðingar tvístígandi

Hugmyndir kvikmyndafyrirtækis um upptökur í Krísuvík voru kynntar á fundi skipulags- og bygginganefndar Hafnarfjarðar í gær. Um er að ræða stríðsmynd, en einn af forsvarsmönnum fyrirtækisins er leikarinn og leikstjórinn frægi, Clint Eastwood. "Deilur standa núna aðallega um gróður, en búið er að haga tillögunni þannig að hún kemur ekki nálægt neinum fornminjum eða neinu slíku," segir Bjarki Jóhannesson forstöðumaður skipulags- og byggingasviðs Hafnarfjarðarbæjar. Skiptar skoðanir eru um þau áhrif sem upptökurnar gætu haft á gróður í Krísuvík, sem er hluti af Reykjanesfólkvanginum. Umhverfisnefnd Hafnarfjarðarbæjar skilaði neikvæðri umsögn um málið, en á fundinum voru aðrir aðilar sem staðhæfðu að upptökurnar hefðu mjög lítilvæg áhrif á gróðurlífið sem auðveldlega verði hægt að bæta fyrir. Málið verður tekið fyrir í skipulags- og byggingarráði í vikunni og líklega liggur niðurstaða fyrir í byrjun næstu viku, en endanleg ákvörðun liggur hjá bæjarráði Hafnarfjarðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×