Innlent

Vegið að starfsheiðri

"Guðjón Arnar Kristjánsson hefur ekki áttað sig á því að árið 2003 breyttum við aðferðafræði við útreikning á hrygningarstofninum og hann er því að bera saman epli og appelsínur," segir Björn Ævarr Steinarsson, forstöðumaður veiðiráðgjafasviðs Hafrannsóknastofnunarinnar. Björn segir því tölur Guðjóns um hrygningarstofn þorsks alrangar, en Guðjón Arnar hélt því fram í Fréttablaðinu í fyrradag að Hafrannsóknastofnun hefði ofmetið stofnstærð þorsksins í spám sínum. Björn segir stofnunina þvert á móti ekki ofmeta stofnstærðina, heldur hafi mat hennar staðist frá árinu 2001. Guðjón Arnar fari hins vegar með rangar tölur í grein sinni og Björn nefnir til að mynda að í skýrslu vorið 2003 komi fram að veiðistofninn hafi verið um 914 þúsund tonn, en ekki 765 eins og Guðjón haldi fram. Því hafi veiðistofninn verið í samræmi við skýrsluna 2002, þar sem spáð var að hann yrði 940 þúsund tonn. "Það minnsta sem hægt er að búast við frá mönnum í hans stöðu er að farið sé rétt með. Með þessu er vegið að okkar starfsheiðri," segir Björn Ævarr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×