Innlent

Lenging Akureyrarflugvallar

Lenging Akureyrarflugvallar um 460 metra er forsenda þess að hægt sé að hefja arðvænlegt millilandaflug til og frá Akureyri, segir Njáll Trausti Friðbertsson, viðskiptafræðingur og flugumferðarstjóri. Í Samgönguáætlun 2005 til 2008 er ekki gert ráð fyrir lengingu Akureyrarflugvallar heldur einungis að gerð verði könnun á þörf fyrir lengingu flugbrautarinnar ásamt fyrstu kostnaðaráætlun. "Lengingin kostar 300 til 350 milljónir króna, svipað og tíu til fimmtán kílómetra langur vegaspotti," segir Njáll Trausti. Á fjölmennum kynningarfundi á Hótel KEA á Akureyri í gær kynnti Njáll Trausti niðurstöður verkefnis sem hann hafði umsjón með, fyrir hönd Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til áfangastaða í Evrópu. Að hans mati er Akureyrarflugvöllur vannýttur og nauðsynlegt að lengja hann til að skapa forsendur fyrir aukinni nýtingu. "Akureyrarflugvöllur fullnægir öllum helstu kröfum flugrekstraraðila öðrum en flugbrautarlengd. Með því að lengja völlinn í 2.400 metra munu fleiri tegundir flugvéla geta notað hann og um leið yrði völlurinn hentugri fyrir lággjaldaflugfélög," segir Njáll Trausti. Kaupfélag Eyfirðinga kostaði rannsóknarverkefnið og segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, að félagið sé tilbúið að leggja fram umtalsverða fjármuni svo hægt verði að ráðast í lengingu flugbrautarinnar sem fyrst. "Við stefnum á að ræða við samgönguyfirvöld og þá fyrst kemur í ljós hvort hægt er að flýta framkvæmdum og hversu mikla fjármuni KEA er tilbúið að leggja í verkefnið," segir Andri. Grænlandsflug hélt uppi beinu flugi tvisvar í viku á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar á árinu 2003 og segir Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, að 6.640 manns hafi nýtt sér þjónustuna: "Flugið var ákveðið með stuttum fyrirvara og nýtingin var slök til að byrja með en óx jafnt og þétt og var komin í um 70 prósent þegar Grænlandsflug ákvað snögglega að hætta fluginu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×