Innlent

Niðurstaða í Suður-Kóreu vonbrigði

"Þessi niðurstaða er auðvitað vonbrigði. Við vorum að vonast til þess að niðurstaðan myndi miða eitthvað í áttina," sagði Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra eftir að ljóst var að tillaga Japana á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins um að hafnar yrðu hvalveiðar í atvinnuskyni, var felld. Hann sagði aðspurður engar hugmyndir um annað en að Íslendingar myndu sitja áfram í Alþjóðahvalveiðiráðinu. "Við getum ekki stundað hvalveiðar hvort sem er vísindaveiðar eða veiðar í atvinnuskyni nema að vera innan einhverrar stjórnunarstofnunar og Alþjóðahvalveiðiráðið er eina stjórnunarstofnunin sem býðst og því verður það svo," sagði Árni. Tillaga Japana um að hafnar yrðu hvalveiðar í atvinnuskyni var felld með meirihluta atkvæða á fundinum í Suður-Kóreu en til þess að heimilt yrði að hefja veiðar þurfti þrjá fjórðu hluta allra atkvæða fundarins. Stefán Ásmundsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, sagði að niðurstaðan kæmi honum ekki á óvart en dagskrá fundarins væri ekki tæmd og því væru menn enn að ræða ýmis atriði sem meðal annars snerust um hvalveiðar í atvinnuskyni en auk þess hefði verið lagt hart að Japönum að hætti við áform sín um að tvöfalda kvóta veiddra hvala í vísindaskyni. "Viðræður eru enn í gangi og verið er að ræða ýmis mál en þetta er eins og við var að búast og við verðum enn að sætta okkur við að veiðar eru aðeins heimilaðar í vísindaskyni," segir Stefán. Engar hvalveiðar hafa verið stundaðar hér á landi í atvinnuskyni frá því árið 1986 en nú standa yfir veiðar í vísindaskyni. Frá því að mælingar hófust árið 1948 hafa verið veiddir hér á landi tæplega sautján þúsund hvalir en aðeins nokkur hundruð þeirra eru veiddir í vísindaskyni og til stendur að þeim veiðum verði hætt árið 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×