Innlent

Samið um álversrannsóknir nyrðra

Samkomulag hefur tekist milli Alcoa, þriggja sveitarfélaga á Norðurlandi og iðnaðarráðuneytis um undirbúningsrannsóknir vegna álvers norðan heiða. Stefnt er að því að eftir átta mánuði verði unnt að ákveða staðsetningu verksmiðjunnar. Hér má segja að stigið sé fyrsta formlega skrefið að byggingu álvers á Norðurlandi. Sex erlend álfyrirtæki hafa sýnt slíku verkefni áhuga og því eru það einnig tímamót að eitt þeirra er nú tekið út og valið til samstarfs, Alcoa, það sama og reisir álverið í Reyðarfirði. Samkomulagið sem undirritað var í gær er milli Alcoa, Fjárfestingarstofunnar, sem iðnaðarráðuneytið á, sveitarfélaganna Skagafjarðar, Húsavíkur og Akureyrar og Atvinnuþróunarfélaga Eyjafjarðar og Þingeyinga. Samkvæmt því skal unnið að staðarvalsrannsóknum þar sem leggja á mat á loftdreifingu, jarðskjálfta, hafnaraðstæður og umhverfisaðstæður. Kanna á hagkvæmni, orkumöguleika og samfélagsleg áhrif álvers og stefnt að því þann 1. mars á næsta ári liggi fyrir nauðsynlegar upplýsingar til að ákveða hvort og hvar á Norðurlandi álver skuli reist. Einnig á að kanna hvort grundvöllur sé fyrir frekari úrvinnslu áls á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×