Innlent

Alþjóðadagur MND-félaga í dag

Lækning hefur ekki enn fundist við MND sjúkdómnum sem þrír til fimm einstaklingar greinast með á Íslandi á hverju ári. Formaður MND félagsins vill að rannsóknir á sjúkdómnum verði hafnar af fullum krafti hér á landi. Í dag er alþjóðadagur MND-félaga um allan heim. MND eða hreyfitaugahrörnun er banvænn taugasjúkdómur sem dregur þá sem greinast til dauða á einu til fimm árum. Á hverju ári greinast 4 til 5 einstaklingar á Íslandi með sjúkdóminn og á hverjum tíma eru um 15 íslendingar með MND. Á þessum degi vinna MND-félög um allan heim að því að kynna sjúkdóminn og afla fjár til rannsókna. Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, segir daginn mikilvægan. Hann minni fólk á það að þrátt fyrir alla nútímatækni sé engin lausn fundin á MND-sjúkdómnum. Guðjón var kosinn formaður MND-félagsins í vetur og tók hann við því starfi af Rafni Jónssyni sem lést á síðasta ári úr sjúkdómnum. Guðjón greindist með sjúkdóminn í mars á síðasta ári. Aðspurður hvað félagið ætli að leggja áherslu á á næstu mánuðum segir Guðjón að barist verði fyrir því að rannsóknir verði hafnar á sjúkdómnum hér á landi og einhver taki að sér að finna lausn á málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×