Innlent

Sumarsólstöður í kaldara lagi

Í dag eru sumarsólstöður og því lengsti dagur ársins. Ekki virðist sem sólin og hitastigið láti það hafa áhrif á sig því samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er í kaldara lagi miðað við seinni hluta júní. Hitastig á landinu eru þrjú til ellefu stig og er svalast norðanlands enda norðanátt. Óli Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta vera í svalara lagi en þó alls ekki óeðlilegt. Við Íslendingar getum átt von á þessu enda búum við á norðurhjara veraldar. Rigning og súld er um norðanvert landið og sums staðar á Suðausturlandi en annars skýjað og úrkomulítið. Allt horfir til betri vegar og hækkar hitastigið eftir því sem líður á vikuna og ætti að verða orðið þokkalega hlýtt þegar kemur að því að velta sér nakinn upp úr dögginni á Jónsmessunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×