Innlent

Hlemmur aftur til virðingarvegs

Um tvö hundruð manns mættu á fund borgaryfirvalda að Hlemmi í gær en þar voru kynntar fyrir íbúum miðbæjarins framtíðarskipulagshugmyndir á nokkrum reitum við Hlemm og í nágrenni. Sá staður hefur tekið stakkaskiptum undanfarna mánuði en aðeins er um fyrstu skref að ræða til að koma svæðinu í heild aftur til vegs og virðingar. Undir yfirskriftinni Hlemmur plús kynntu áhugasamir sér þær hugmyndir sem á borði eru um Hlemm sjálfan og næsta nágrenni. Þar á meðal eru stórar hugmyndir um byggingu íbúðar- og skrifstofuhúsnæðis milli Einholts og Þverholts, Ármannsreitinn svokallaða þar sem íþróttafélagið Ármann hefur haft aðsetur um langa hríð og Höfðatorg sem rísa á í Borgartúni. Gestir sem til máls tóku lýstu efasemdum um að bygging þúsund íbúða á svæðum nálægt Hlemmi hefðu ekki í för með sér stóraukna bílaumferð með tilheyrandi umferðarhnútum. Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs borgarinnar, sagði fundinn hafa verið gagnlegan. Mörg sjónarmið íbúa og annarra hafi komið fram og tilgangnum þannig náð. "Við erum að fylgja því sem við höfum verið að gera mjög víða undanfarið að kynna allar breytingar strax á byrjunarstigi fyrir íbúum og vinna þannig að skipulagsmálum í meiri sátt við alla sem að koma. Þær hugmyndir sem komu hér fram verða skoðaðar og svo höldum við annan fund í haust þegar meiri skriður er kominn á málið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×