Innlent

Leita starfsfólks erlendis

Starfsmannavelta í umönnun fatlaðra er slík að framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi hefur íhugað að reyna að auglýsa erlendis eftir fólki til starfa, setja það beint á íslenskunámskeið og vonast til þess að það ílengist í starfi. Atvinnuleysi á landinu er með minnsta móti, en það mældist 2,2% í maímánuði. Það jafngildir því að rúmlega 3.300 manns hafi verið á atvinnuleysisskrá að jafnaði. Þetta góða atvinnuástand hefur áhrif á ýmsar starfsgreinar. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi auglýsir til dæmis þrettán laus störf í dag. Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra svæðisskrifstofunnar, má segja að í vetur hafi vantað 17-20 stöðugildi þannig að 20-25 manns hafi skort í hverjum mánuði. Flestir sem vinna þessi störf eru ófaglærðir. Sumir atvinnurekendur hafa einfaldlega leitað út fyrir landsteinana eftir starfsfólki. Spurð hvort það sé möguleiki fyrir þessa starfsgrein segir Sigríður að þau hafi leitt hugann að því. Vandinn sé sá að starfsfólkið verði að hafa fullt vald á íslenskri tungu og það yrði því að byrja á því að kenna því tungumálið áður en það kæmi til starfa. Sigríður segir grunnlaunin vissulega vera lág en þar sem þetta sé mest vaktavinna sé hægt að fá 200 til 250.000 krónur í heildarlaun á mánuði. Starfsöryggi og öll réttindi séu mikil en allt komi fyrir ekki - stöðugar auglýsingar skili einfaldlega ekki árangri. Og þá er það spurning hversu fljótt fólk geti verið að læra íslensku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×