Innlent

Skiptir skeggrótin máli?

Í dag er haldið upp á níutíu ára kosningarétt íslenskra kvenna. Klukkan eitt hefst baráttuhátíð á Þingvöllum þegar gengið verður niður Almannagjá við undirleik lúðraþyts og kvennasöng. Þá verða álfadansmeyjar og valkyrjur með í för. Í þessum mánuði er aldarfjórðungur frá því að Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kvenna kjörin forseti lýðveldisríkis. Frú Vigdís mun einmitt flytja hátíðarávarp á Þingvöllum nú síðdegis. Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði Vigdís það hafa verið mikinn sigurdag þegar kosningarrétturinn fékkst og eiginlega alveg ótrúlegt að það skuli vera 90 ár síðan og að konur skuli ekki vera komnar lengra. Katrín Anna Guðmundsdóttir, kynningarstjóri baráttuhátíðarinnar, er sammála því. Vissulega hafi margt áunnist, t.a.m. hafi konur mun betri aðgang að menntun, en aftur á móti hafi ekki tekist að draga úr ofbeldi á konum: Úrræðin fyrir þær konur sem beittar eru ofbeldi eru orðin betri en ekki hefur tekist að stemma stigu við ofbeldinu sjálfu. Þá er launamunurinn enn til staðar. Katrín Anna segist telja að ástæðan fyrir því að þetta gangi svona hægt sé að það vanti að setja þessi mál í forgang. „Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum að vinna að því og þess vegna þurfa þessi mál að verða sett í forgang til þess að komast eitthvað áfram,“ segir Katrín Anna.   Á dagskránni eru ýmis tónlistaratriði og fjöldasöngur, ljóðalestur og sagnfræðileg upprifjun. Gerð Þingvallafundar verður lesin upp og afhent Árna Magnússyni, félags- og jafnréttisráðherra. Árni ritaði í morgun bréf til allra fyrirtækja og stofnana á landinu með fleiri en 25 starfsmenn og hvatti til launajafnréttis og til þess að skoðað verði hvort hugsanlega sé fyrir hendi óútskýranlegur kynbundinn launamunur. Á sama tími sendi ráðuneytið þessum fyrirtækjum og stofnunum veggspjald sem ætlast er til að hengt verði upp á áberandi stað en á því er spurt: „Skiptir skeggrótin máli?“ Árni segist ekki vilja trúa því að svo sé og telur að þarna sé miklu frekar um ómeðvitaðan launamun að ræða. Hann segir kynbundinn launamun óþolandi en trúir því að hægt sé að bæta þar úr. Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn segja íslenskar baráttukonur, eða svo notuð séu orð Vigdísar Finnbogadóttur frá í gær þá gerist ekkert ef maður er ekki bjartsýnn; bjartsýnin er til að fleyta sér fram á við. Katrín Anna segir nokkra rigningardropa ekki eiga að fæla neinn frá hátíðardeginum á Þingvöllum - hún er bjartsýn á góða mætingu og segir enga verri þó hún vökni. Og hún segir karla að sjálfsögðu velkomna líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×