Innlent

Barátta þvert á flokka

„Þetta er barátta sem gengur þvert á flokka og sem allar konur geta sameinast um,“ sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri við upphaf hátíðahalda í tilefni af því að á morgun eru níutíu ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Hátíðin byrjaði á athöfn í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík í dag en þar var þeirra kvenna sem börðust fyrir auknum réttindum kynsystra sinna minnst á hátíðlegan hátt. En þó svo baráttan sé langt á veg komin segir borgarstjóri mikilvægt að ekki sé sofnað á verðinum og að baráttan lifi. Það vanti líka mikið upp á hvað varðar laun og fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja. Í kirkjugarðinum voru saman komnar konur með ólíkar skoðanir og stefnur í stjórnmálum. En um þetta málefni gátu þær þó verið sammála, enda segir Steinunn þetta baráttu sem gengur þvert á flokka, hvort sem þær eru í Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu.  Lögð voru blóm á legstaði ýmissa forystukvenna í kvenréttindamálum og þó svo margt hafi áunnist í baráttunni er það launamisréttið sem helst brennur á mönnum og konum í dag. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, segit fulla ástæðu til að halda baráttunni áfram og nefnir sérstaklega launamisréttið. Vigdís segir 19. júní ávallt verða minnst sem sigurdags í íslenskri sögu, alveg eins og 17. júní. Og hún segir eiginlega ótrúlegt að konur séu komnar svona stutt á veg þótt liðin séu 90 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×