Innlent

Útiloka ekki frekari framúrkeyrslu

Í heilbrigðisráðuneytinu vonast menn til að vera nærri núllinu á þessu ári en í landbúnaðarráðuneytinu hafa menn ekki komist fyrir vanda skólanna þótt rekstur þeirra horfi betur við. "Það er takmark okkar að vera innan fjárlaga," segir Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um framúrkeyrslu undir hans ráðuneyti á fjárlagaárinu 2004. "Við reynum eftir megni af hafa eftirlit með okkar stofnunum. En oft koma upp óvænt útgjöld sem ekki er hægt að komast hjá, sérstaklega hjá heilbrigðisstofnunum sem taka á móti bráðatilvikum." Jón segir það eðlilegt að ráðuneyti sem veltir 25 milljörðum sé hæst í krónutölum og bendir á að þrátt fyrir mikinn umframkostnað hjá Landsspítala-Háskólasjúkrahúsi sé það samt innan fjögurra prósenta markanna. Hann segir einnig að ástandið sé mun betra hjá heilbrigðisráðuneytinu í dag en fyrir nokkrum árum. Jón vildi ekki lofa því að ráðuneytið yrði innan ramma fjárlaga á þessu fjárlagaári, en hann var vongóður um að það yrði nærri núllinu ef ekki neitt óvænt kæmi upp á. "Við erum nánast með þessa skóla í gjörgæslu," segir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra um framúrkeyrslu Hólaskóla og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Hann segir eftirspurn eftir menntun hafa aukist stórlega síðustu ár og það gilti líka um þessa skóla. "Það er mikil spenna hjá stjórnendum þessara skóla að verða við þessu kalli nemenda." Einnig sagði Guðni að um uppsafnaðan vanda síðustu ára væri að ræða. Yfirdýralæknir, sem heyrir undir fjármálaráðuneytið, fór einnig töluvert fram úr fjárlögum. Ingimar Jóhannsson, fjármálastjóri landbúnaðarráðuneytisins, skýrir það sem uppsafnaðan vanda síðustu ára vegna gjaldþrota sláturhúsa, en þau greiða yfirdýralækni fyrir eftirlit með slátrun. Ingimar segir einnig að Hólaskóli hafi farið út í tilraunaverkefni tengd fiskeldi sem hann réði ekki við. Þá sagði hann kostnaðinn við að breyta Hvanneyri í háskóla hafa verið vanmetinn og að þar hafi menn heldur ekki gætt að sér og hafi of mörg járn í eldinum miðað við fjárveitingar. Ingimar átti von á því að skólarnir myndu aftur fara fram úr fjárlögum í ár. "En menn eru byrjaðir að bremsa þótt þeir hafi ekki enn numið staðar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×