Innlent

Efla kennslu í tryggingarétti

Háskóli Íslands og Tryggingastofnun ríkisins hafa gert með sér samning sem hefur það markmið að efla kennslu og rannsóknir í almannatryggingarétti með sérstakri áherslu á lífeyristryggingar. Þetta er í fyrsta sinn sem lagadeild Háskólans gerir slíkan samning við stofnun utan Háskólans að því er segir í sameiginlegri tilkynningu frá stofnunum. Samningurinn byggist á ákvæði í samstarfssamkomulagi sem í gildi hefur verið milli Háskóla Íslands og Tryggingastofnunar frá árinu 2002. Ellefu vikna kennsla í almannatryggingarétti verður samkvæmt samningnum kjörgrein í framhaldsnámi við lagadeild Háskóla Íslands og veitir Tryggingastofnun nemendum í námskeiðinu aðgang að upplýsingum og gögnum stofnunarinnar og leggur þeim til vinnuaðstöðu og leiðsögn við gerð verkefna. Fyrsta námskeiðið í almannatryggingarétti hófst um síðustu áramót í umsjón Brynhildar Flóvenz, lektors við HÍ. Fimm sérfræðingar Tryggingastofnunar fluttu erindi á námskeiðinu og luku fjórtán nemendur náminu í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×