Innlent

Fjölskyldan segir alla hrædda

Fjölskylda Halldórs Laxness kveðst ekki vera hissa á þeirri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að vísa kæru hennar á hendur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni frá. "Við bjuggumst við þessu. Það eru allir svo hræddir á Íslandi," segir Guðný Halldórsdóttir. Hún vildi lítið segja um þá niðurstöðu að fjölskyldan skyldi greiða hálfa milljón til Hannesar í málskostnað. "Við verðum einfaldlega að virða þessa niðurstöðu." Fjölskylda skáldsins hefur ekki rætt hvernig eigi að bregðast við úrskurði Héraðsdóms í fyrradag. "En þetta stoppar ekki hér. Það er ekki búið að taka á málinu." Guðný sagði dóminn enn eitt dæmið um að málið væri látið snúast um aukaatriði. "Þetta snýst ekki um pólitík og þetta snýst ekki um gæsalappir. Þetta snýst um ritstuld." Hún gaf líka lítið fyrir sáttatal Hannesar. "Það þýðir ekki að bjóðast til að skrifa nýja bók þegar skaðinn er skeður. Bókin er uppi í hillunum hjá fólki." Að lokum vitnaði Guðný í eina af persónum skáldsögunnar Kristnihald undir Jökli: "Ég segi eins og skáldið Jódínus Álfberg sagði: Innihaldið skiptir máli, skítt með umbúðirnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×