Innlent

Tuttugu prósenta hækkun

Kjölur og önnur félög starfsmanna sveitarfélaga í Starfsgreinasambandinu og Samflotinu svonefnda skrifuðu undir nýjan kjarasamning við launanefnd sveitarfélaga síðastliðið sunnudagskvöld. Þrjú til fjögur þúsund starfsmenn sveitarfélaga víðs vegar um land eiga aðild að samningnum. Anna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, segir að samningurinn gildi frá 1. apríl til 30. nóvember 2008 og feli í sér liðlega 20 prósenta launahækkun á samningstímanum. Ný launaflokkaröðun tekur gildi 1. júní 2006 sem kemur sumum hópum til góða en öðrum ekki. Samningurinn gerir meðal annars ráð fyrir þriggja prósenta hækkun launa 1. janúar ár hvert út samningstímann. Félög bæjarstarfsmanna í Kópavogi, Hafnarfirði og á Akranesi slitu samningaviðræðum á laugardag vegna ágreinings um starfsmat og áhrif þess á kaup og kjör. Félögin þrjú töldu tilboð nefndarinnar óviðunandi og kröfðust sérstakrar bókunar í kjarasamningi fyrir þá sem starfsmat nær ekki til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×