Innlent

Samvinna við Indverja í vísindum

Opinber heimsókn forseta Indlands, dr. Abdul Kalam, hófst í morgun þegar forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Doritt Moussaief, tóku á móti honum á Bessastöðum. Forsetinn lagði áherslu á samvinnu landanna á vísindasviði. Indlandsforseti renndi í hlað á Bessastöðum í blíðskaparveðri upp úr klukkan tíu í morgun. Forsethjónin íslensku og ráðherrar ríkisstjórnarinnar tóku á móti honum, sem og hópar skólabarna úr Víðistaðaskóla og Öldutúnsskóla sem veifuðu fánum beggja landa. Forsetarnir áttu um hálfrar klukkustundar langan fund og ræddu að því loknu við blaðamenn. Kalam er 73 ára gamall, flugvélaverkfræðingur að mennt, og er nokkurs konar faðir bæði geim- og eldflaugaáætlana Indlands. Hann kemur þó ekki úr menntamannafjölskyldu heldur braust til mennta og var sá fyrsti í fjölskyldunni til að útskrifast úr háskóla. Það má merkja á máli hans; hann leggur mikla áherslu á menntun og mikilvægi hennar fyrir framtíðarþróun indversks samfélags. Bæði Kalam og Ólafur Ragnar lögðu áherslu á möguleika landanna til samvinnu á vísindasviðinu. Var þar einkum nefnd lyfjaframleiðsla og viðvörunarkerfi við náttúruvá eins og jarðskjálftum. Forsetinn ætlar enda að hitta háskólamenn síðar í dag til að ræða þróun slíkra kerfa. Hann mun sömuleiðis leggja hornstein að nýrri byggingu Actavis í Hafnarfirði. Heimsókn Indlandsforseta lýkur á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×