Innlent

Vinna gegn óréttmætum launamun

Rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst lýsir vilja til að vinna gegn óréttmætum launamun kynjanna með Samtökum atvinnulífsins og lætur sér í léttu rúmi liggja þótt framkvæmdastjórinn gagnrýni launakönnun háskólans harðlega. Launakönnun Viðskiptaháskólans á Bifröst sýndi tæplega fimmtíu prósenta mun á launum útskrifaðra kvenna og karla í sambærilegum störfum. Runólfur Ágústsson rektor sagði þetta vera smánarblett á íslensku samfélagi. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hins vegar að könnunin sé ómarktæk. Ekki hafi verið gerð tilraun til að bera saman laun fyrir sambærilegan vinnutíma. Runólfur segir að Bifrastarkönnunin gefi vísbendingu um hvernig ástandið sé. Ef til vill geri konur sér ekki meiri vonir en raun ber vitni þegar þær mæta í atvinnuviðtöl. Hann segir könnunina í rauninni sýna tvennt: Annars vegar arðsemi náms við Bifröst, sem sé mjög jákvæð, og hins vegar brúttó laun þeirra sem útskrifast. Þar sé að finna mjög mikinn óútskýrðan launamun milli karla og kvenna sem þurfi að huga að lausnum að. Runólfur segir að skólayfirvöld á Bifröst ætli að vinna með atvinnulífinu að því að breyta ástandinu, og hins vegar að vinna með sínum nemendum. Það þurfi augljóslega að styrkja kvenkyns nemendurna fyrir atvinnuviðtöl og það ætli þau að gera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×