Innlent

Könnunin segir ekkert um launamun

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst hafi að öllum líkindum viljað vekja athygli á útskriftinni og stofnun rannsóknarmiðstöðvar, með þeim ummælum sínum að íslenskt atvinnulíf meti konur ekki til jafns við karlmenn með sömu menntun. Runólfur Ágústsson rektor sagði í útskriftarræðu sinni á laugardag að hann skammaðist sín fyrir þessi skilaboð og byggði orð sín á könnun um stöðu og störf nemenda sem hafa útskrifast frá Bifröst. Þar kom fram að þrátt fyrir að konur tvöfaldi laun sín eftir námið muni samt nær fimmtíu prósentum á launum þeirra og launum karla. "Þessi könnun gæti aldrei talist vera könnun á launamun milli kynja því hún gerir enga tilraun til að bera saman laun fyrir sambærilegan vinnutíma í sambærilegum störfum," segir Ari sem telur þó ljóst að til sé óútskýrður launamunur en hann sé almennt ekki eins mikill og kemur fram í könnuninni. Könnunin geti þó verið vísbending um ýmislegt annað sem áhugavert væri að skoða frekar, eins og starfsval nýútskrifaðra og hvernig fólk verðleggi sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×