Innlent

Helmings launamunur eftir útskrift

Karlar sem útskrifast frá Viðskiptaháskólanum að Bifröst geta vænst þess að fá nærri 50 prósentum hærri laun en konur í sömu stöðu. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem háskólinn gerði á stöðu og störfum fólks sem nýlega hefur úrskrifast og Runólfur Ágústsson, rektor skólans, kynnti í útskriftarræðu í dag. Í ræðu Runólfs kom fram að námið við skólann færði konum rúmlega tvöfalt hærri laun en ella en engu að síður væri launamunur hjá körlum og konum sem ljúka námi verulegur, eða tæp fimmtíu prósent. Sagði Runólfur enn fremur að kynbundinn launamunur væri smánarblettur á íslensku atvinnulífi og gegn því þyrfti skólinn að berjast með öllum tiltækum ráðum. Um leið kynnti hann samning sem skólinn hefur gert við félagsmálaráðuneytið um stofnun rannsóknarseturs vinnuréttar og jafnréttismála sem m.a. skal efla rannsóknir á sviði atvinnulífs og jafnréttismála. Þá verður myndaður sérstakur átakshópur meðal kvenna í næsta útskriftarárgangi sem mun með starfsfólki skólans vinna næsta vetur að eflingu vitundar kvenna um stöðu sína og verðmæti á vinnumarkaði. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu á ráðningarferli og ráðgjöf við atvinnuleit að námi loknu. Í þriðja lagi verða íslenskum fyrirtækjum kynntar niðurstöðurnar og leitað eftir samstarfi um úrbætur með markvissum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×